Sleppa leiđarkerfi.

Tvíæringurinn í Feneyjum

þátttaka Íslands

 

   

 

Ásmundur Sveinsson, 1950s Svavar Gudnason, Íslandslag, 1944 Sigurdur Gudmundsson Magnús Pálsson, Exhibition view, 1980 Jón Gunnar Árnason, exhibition view, 1982 Kristján Daviðsson, 1977 Erró, Odelscape, 1982 Gunnar Örn Gunnarsson, Maria and the Land, 1988 Helgi Thorgils Fridjónsson, Exhibition view, 1990 Hreinn Frídfinnsson, A Pair, 2004 Jóhann Eyfells Birgir Andrésson, Flags, 1994-95 Steina Vasulka: Orka, 1997

Sigurdur Árni Sigurdsson, Exhibition view, 1999 Finnbogi Pétursson: Diabolus, 2001 Rúrí: Endangered Waterfalls, 2003 Gabriela Frídriksdóttir, Icelandic Pavilion 2005 Steingrimur Eyfjörd, Sheep-pen, 2007 2009 Ragnar Kjartansson

 

Feneyjatvíæringurinn svokallaði – La Biennale di Venezia – er langvirtust allra alþjóðlegra myndlistarsýninga og þangað sækja listamenn, myndlistarsafnarar, safnafólk og listsalar, listfræðingar og gagnrýnendur alls staðar að úr heiminum auk áhugamanna, alls um milljón áhorfenda hvert sinn sem sýningin er haldin. Feneyjatvíæringurinn er líka elsta sýning sinnar tegundar. Hann var fyrst haldinn árið 1985 og fékk fljótlega á sig mjög alþjóðlegt yfirbragð. Eftir 1907 bauðst ýmsum löndum að byggja sína eigin skála á sýningarsvæðinu þar sem þau hafa síðan teflt fram sínum bestu myndlistarmönnum annað hvert ár. Þótt kannski megi telja slíka samkeppni þjóðanna nokkrar tímaskekkju nú á tímum alþjóðavæðingar er þetta fyrirkomulag enn grunnurinn að tvíæringnum í Feneyjum og nýtur enn gríðarlegra vinsælda eins og ráða má af aðsóknartölum, gríðarlegri umfjöllun í fjölmiðlum jafnt sem fagritum og ekki síst af því að sífellt fleiri lönd sækjast eftir því að taka þátt í sýningunni og vanda æ betur til síns framlags. Árið 2007 sendu ríflega 150 þjóðlönd sýningar á tvíæringinn auk þess sem hliðarsýningar af ýmsu tagi eru haldnar um alla borgina. Kjarni tvíæringsins er enn í Giardini, görðunum sem eru nær eina opna svæðið í þessari þéttbyggðu borg og þar sem elstu sýningarskálarnir voru byggðir. Þá hafa geysistórar byggingar við gömlu dokkurnar, þar sem skipin í hinum fræga flota Feneyinga voru áður fyrr smíðuð, verið teknar undir myndlistarsýningar. Samt fjölgar bæði sýnendum og gestum enn svo tvíæringurinn teygir nú anga sína um alla þessa sögufrægu borg..
[Nánari upplýsingar Tvíæringinn í Feneyjum fást á vefsíðu hans hér]

 

Fyrstu fulltrúar Íslands á Feneyjatvíæringnum voru Ásmundur Sveinsson (1893–1982) og Jóhannes S. Kjarval (1885–1972) sem sýndu þar verk árið 1960. Kjarval og Ásmundur voru þátttakendur í hinum alþjóðlega hluta sýningarinnar sem ítölsku skipuleggjendurnir bjóða jafnan til og svo var ýmist um nokkra næstu fulltrúa Íslands eða að þeir voru gestir með dönskum eða norrænum sýnendum. Árið 1984 bauðst hins vegar tækifæri fyrir Ísland til að senda eigin sýningu til Feneyja og hefur svo verið síðan. Þetta ár ákváðu Finnar að ganga til liðs við Noreg og Svíþjóð í nýbyggðum sameiginlegum sýningarskála þjóðanna og við það losnaði lítill skáli sem Finnar höfðu notað og buðust nú til að leigja Íslendingum. Þetta er lítil timburbygging sem þekktasti arkitekt Finna, Alvar Aalto, hannaði árið 1956 og átti upprunalega aðeins að standa sumarlangt en hefur nú verið í notkun í rúmlega hálfa öld, enda bæði merkileg smíði og afar vel í sveit settur á miðju sýningarsvæðinu.

 

Fyrir tvíæringinn 2007 ákváðu Finnar hins vegar að taka þennan skála til sín aftur og auka þannig við framlag sitt svo íslensku sýningunni var fundinn nýr staður í gamalli höll eða palazzo við stærsta síkið í borginni miðri, Canale Grande. Þótt þetta sé nokkru utan við meginsýningarsvæðið er staðsetningin í alfaraleið og rýmið miklu glæsilegara og hentugra til að gera framlagi listamanna okkar verðug skil. Höllin heitir fullu nafni Palazzo Bianchi Michiel en gamlir Feneyingar kalla hana gjarnan Dal Brusa og komst það nafn á eftir að gamla gotneska byggingin skemmdist nokkuð í eldi árið 1774 og var endurbyggð 1777. Á efri hæðum hallarinnar má enn sjá skreytingar og veggmálverk eftir hinn ódauðlega átjándu aldar málara Jacopu Guarana en það er hið mikla anddyri hallarinnar sem notað var undir sýningu Steingríms Eyfjörð, fulltrúa Íslands á tvíæringnum 2007, og verður aftur notað fyrir framlag Ragnars Kjartanssonar 2009. Sýningin 2007 var líka sú fyrsta sem skipulögð var af Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.


 

 

1960  1972   1976   1978  1980  1982  1984  1986  1990   1993  1995  1997  1999   2001   2003   2005   2007   2009   2011

 

Ásmundur Sveinsson •  Birgir Andrésson •  ErróFinnbogi Pétursson •  Gabríela Fridriksdóttir •  Gunnar Örn Gunnarsson •  Helgi Thorgils Fidjónsson •  Hreinn Friðfinnsson Jóhann Eyfells Jón Gunnar Árnason •  Jóhannes Kjarval • Kristján Davidsson •  Kristján Gudmundsson •  Magnús Pálsson • Ragnar KjartanssonRúrí  •  Sigurdur Gudmundsson •  Sigurdur Árni Sigurdsson  •  Steina Vasulka  • Steingrimur Eyfjörd  •  Svavar Guðnason  •    Þorvaldur Skúlason


 

1960
Fyrstu íslensku listamennirnir á Feneyjatvíæringnum voru, sem fyrr segir, Ásmundur Sveinsson (1893-1982) og Jóhannes Kjarval (1885-1972), verðugir fulltrúar íslenskrar myndlistar frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Verk þeirra voru á alþjóðlegu sýningunni við hlið fulltrúa frá Írlandi, Perú og Portúgal. Kjarval er auðvitað einn langþekktasti myndlistarmaður Íslendinga á tuttugustu öld og sameinaði í málverkum sínum á stórkostlega frumlegan hátt íslenskt landslag og háþróaða myndlist með áhrifum frá symbólisma, expressjónisma og jafnvel kúbisma. Ásmundur var þekktur milli heimsstyrjaldanna tveggja fyrir stílfærðar mannamyndir sínar en eftir seinni heimsstyrjöld færðist stíll hans til meiri abstraktsjónar og varð hann virkur þátttakandi í form- og stílbreytingum sem nýjar kynslóðir stóðu fyrir. Á tvíæringnum 1960 voru sýnd tíu málverk eftir Kjarval og þrír járnskúlptúrar Ásmundar. Menntamálaráðuneytið og menntamálanefnd sáu um að velja verkin.
 
Ásmundur Sveinsson, The Dance, 1953

1972
Íslendingar tóku ekki aftur þátt í tvíæringnum fyrr en 1972 að tveimur málurum, þeim Þorvaldi Skúlasyni (1906–1984) og Svavari Guðnasyni (1909–1989) var boðið á alþjóðlegu sýninguna. Þeir voru báðir með þekktustu listamönnum hér heima og Svavar auk þess velþekktur alþjóðlega fyrir hlut sinn í þróun módernískrar myndlistar í Danmörku og þátttöku í fjölþjóðlegu listamannahreyfingunni Cobra. Þau verk Svavars sem sýnd voru eru enn meðal helstu gersema íslenskrar myndlistar – til dæmis Íslandslag (1944), Gullfjöll (1946) og Stuðlaberg (1949).

 

 

 

Svavar Gudnason, Íslandslag, 1944

1976
Sigurður Guðmundsson (b. 1942) var fyrsti Íslendingur af yngri kynslóð sem varð fulltrúi þjóðarinnar í Feneyjum en ítölsku sýningarstjórarnir buðu honum í alþjóðlegu sýningarhöllina. Ferill Sigurðar hófst á sjöunda áratugnum og hann var einn upphafsmanna SÚM-hópsins sem markaði nýtt upphaf í íslenskri myndlist. Sigurður vinnur í fjölda miðla, ljósmyndir, höggmyndir, teikningar og gjörninga, en hefur líka samið tónverk og skrifað bækur. Verk hans má flokka með konseptlist en hann hefur afar persónulegan stíl, gjarnan skotinn kímni, og hefur sýnt víðar um heiminn en nánast nokkur annar íslenskur myndlistarmaður.

 

 

1978
Árið 1978 sýndi Sigurður Guðmundsson aftur á Feneyjatvíæringnum og er það sjaldgæft en í þetta sinn fór hann í boði norrænu sýningarnefndarinnar og sýndi í Norðurlandaskálanum. Menntamálaráðuneytið lagði fram fé til að kosta þátttöku hans.

 
Sigurdur Gudmundsson

1980
Aftur bauð norræna sýningarnefndin íslenskum listamanni árið 1980, í þetta sinn Magnúsi Pálssyni (f. 1929). Aftur studdi menntamálaráðuneytið þennan íslenska fulltrúa og hann sýndi fimm verk í danska skálanum. Magnús lærði sviðshönnun og myndlist á sjötta áratugnum og varð fljótt atkvæðamikill í íslenskri framvarðalist. Hann átti samstarf við marga listamenn, til dæmis oft við Dieter Roth, ýmsa framsækna leiklistarhópa og svo listamennina í SÚM-hópnum. Í lok sjöunda áratugarins vann hann gjarnan verk sín í gips og fékkst næstu árin oft við að taka gipsmót af ýmsum „óefnislegum“ hlutum. Eitt þekktasta verk hans frá þessum tíma sýnir bilið milli flugbrautar og hjólanna á þyrlu sem er rétt við að lenda (1976) en það var einmitt eitt verkanna sem sýnd voru í Feneyjum.

 

 

Magnús Pálsson, Exhibition view, 1980

 

1982

Þetta ár voru tveir fulltrúar Íslands á Feneyjatvíæringnum og sýndu þeir í boði Ítalíu í skála með Áströlum og Indverjum. Þetta voru þeir Jón Gunnar Árnason (1931–1989) og Kristján Guðmundsson (f. 1941). Jón Gunnar þekkja nú allir Íslendingar og allir ferðamenn sem hingað koma fyrir verkið Sólfar sem stendur við norðurströndina í Reykjavík en hann var einn merkilegasti höggmyndasmiður sinnar kynslóðar. Tvö af verkum hans voru til sýnis í Feneyjum: Cosmos og Gravitas. Kristján, bróðir Sigurðar sem fór til Feneyja 1976 og 1978, sýndi hins vegar teikningar, málverk og myndbandsverk. Menntamálaráðuneytið studdi sýninguna og var Magnús Pálsson fenginn til að velja listamennina. Þótt listamennirnir stæðu að mestu sjálfir að undirbúningi urðu vandkvæði á, verk töfðust á póstsendingu og þegar til átti að taka reyndist skálinn sem þeim hafði verið úthlutaður ekki fullgerður þegar opna átti sýninguna fyrir blaðamönnum. Jóni Gunnari og Kristjáni tókst þó að koma verkum sínum upp í hálfkláraðri byggingunni áður en sýningin var opnuð.

 

Val og umsjón: Magnús Pálsson
Aðstoðarmaður listamanna: Rúrí

 

Jón Gunnar Árnason, exhibition view, 1982

 

1984
Kristján Daviðsson (b. 1917) var fyrsti listamaðurinn sem sýndi á tvíæringnum í eigin skála undir merki Íslands en þá höfðu Finnar sem fyrr segir leigt Íslendingum litla skálann eftir Aalto. Ísland gerði þá samning um leigu á skálanum um óákveðna framtíð. Kristján fór með þrettán málverk sem sýndu vel hæfileika hans til lýrískrar abstraksjónar og tilfinningu hans fyrir litaspili. Kristján kom fyrst fram á sjónarsviðið með Septembersýningunum seint á fimmta áratugnum og hneigðist þá einkum til prímitífrar tjáningar og svokallaðrar art brut-stefnu en þróaði smám saman með sér óformlegri og frjálsari tjáningu, þá djörfu litanotkun og persónulegu pensilskrift sem hann er þekktastur fyrir.

 

Val og umsjón: Gunnar B. Kvaran
Nefnd: Magnús Pálsson, Einar Hákonarson og Jóhann Jóhannesson

 

Alvar Aalto: The Finnish Pavilion, 1956

 

Kristján Davíðsson. Morgunstund (Morning Hour), 1977

1986

Árið 1986 var þema tvíæringsins samþætting og tengsl vísinda og lista. Erró (Guðmundur Guðmundsson f. 1932) var fulltrúi Íslands, fyrsti og eini popplistmálarinn sem farið hefur fyrir okkar hönd. Hann var þá þegar orðinn vel kunnur um Evrópu, einkum í Frakklandi, og án efa langþekktasti listamaður Íslendinga. Hann sýndi málverk í sínum þróttmikla teiknimyndastíl sem báru sterkan boðskap andófs gagnvart neyslusamfélaginu, stríði, ofbeldi og græðgi.

 

Val og umsjón: Gunnar B. Kvaran
Nefnd: Einar Hákonarson, Gylfi Gíslason og Jóhannes Jóhannesson

 

Erró, Odelscape, 1982

 

 

 

1988

Gunnar Örn Gunnarsson (1946–2008) var fulltrúi Íslands í Feneyjum 1988. Hann var sjálflærður listamaður sem varð einn af þekktustu listmálurum sinnar kynslóðar hér heima og vakti líka athygli víðar. Á áttunda og níunda áratugnum málaði hann fígúratíft sem var nokkuð á skjön við þá abstraksjón sem annars hafði verið að mestu ráðandi. Hann málaði fólk og dýr og stundum fígúrur sem voru hálf-mennskar og hálf-dýrslegar í litríku landslagi. Síðar yfirgaf Gunnar Örn þessa nálgun og fór að fást við óhlutbundnari og andlegri viðfangsefni í málverkum sínum sem smátt og smátt urðu bæði meira abstrakt og mun persónulegri.

 

Val og umsjón: Gunnar B. Kvaran
Nefnd: Gunnar B. Kvaran, Ragna Róbertsdóttir og Bera Nordal

.


 

Gunnar Örn Gunnarsson, Maria and the Land, 1988

1990

Helgi Þorgils Friðjónsson (f. 1953) sýndi tíu málverk fyrir Íslands hönd í Feneyjum 1990. Helgi Þorgils þróaði snemma með sér afar sérstæðan myndstíl þar sem sláandi stílfærðar manneskjur og dýr virðast svífa í óræðu rými og næstum súrrealísku samhengi hvað við annað. Verk hans hafa tilvísun bæði til bernskrar listar og til akademískrar listar fyrri alda en eru umfram allt einstaklega leikandi og persónuleg. Helgi Þorgils hefur verið atkvæðamikill í íslensku listalífi fyrir sýningar sínar en einnig sem kennari, sem einn af stofnendum Nýlistasafnsins og störf í ýmsum nefndum og ráðum.

 

Val og umsjón: Gunnar B. Kvaran

 

Helgi Thorgils Fridjónsson, Exhibition view, 1990

1993

Tveir listamenn sýndu í og við íslenska skálann árið 1993, þeir Hreinn Friðfinnsson (f. 1943) og Jóhann Eyfells (f. 1923). Hreinn er einn af þekktustu listamönnum SÚM-kynslóðarinnar og hefur dvalið lengi og sýnt erlendis þótt hann taki líka virkan þátt í íslensku listalífi. Verk hans eru ljóðræn og fínleg, stundum ljósmyndir, stundum höggmyndir úr ýmsu efni og stundum hrein konseptverk. Þau hafa gjarnan sterka persónulega skírskotun og vísa líka oft til Íslands en ná alltaf að heilla áhorfendur hvar sem þau eru sýnd. Jóhann Eyfells tilheyrir eldri kynslóð en verk hans hafa þó alla tíð verið mjög framsækin og nýstárleg, unnin í eins konar bræðingi myndlistar og efnafræði þar sem hann kannar umbreytingu málma og formeiginleika þeirra með aðferð sem hann hefur sjálfur nefnt reseptúalisma. Jóhann hefur búið lengst af í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Val og umsjón: Bera Nordal
Nefnd: Þorgeir Ólafsson og Hannes Lárusson

 

Hreinn Frídfinnsson, A Pair, 2004

 

Jóhann Eyfells

1995

Birgir Andrésson (1955-2007), var fulltrúi Íslands árið 1995 og sýndi verk sem síðan hafa orðið eins konar einkennismyndir fyrir nálgun hans og viðfangsefni: Annars vegar íslenska fána prjónaða úr lopa í sauðalitunum og hins vegar nákvæmar teikningar sínar af fornleifauppgreftri. Hér eins og alltaf beitti Birgir rannsóknum sínum á þjóðlegum táknum og minnum til að búa til hnyttin og eftirminnileg listaverk.

 

Val og umsjón: Bera Nordal
Nefnd: Þorgeir Ólafsson og Hannes Lárusson

 
Birgir Andrésson. Flags, 1994-5

1997

Fyrsta konan sem fór til Feneyja sem fulltrúi Íslands var Steina Vasulka (f. 1940). Steina lærði fiðluleik en náði frama í allt öðrum og nýrri miðli, vídeólist, þar sem hún telst til frumkvöðla og nýtur alþjóðlegrar virðingar fyrir verk sín. Steina fluttist til Bandaríkjanna árið 1965 og sneri sér nokkrum árum síðar að vídeólistinni þar sem hún vann oft í samstarfi við eiginmann sinn, Woody Vasulka. Starf þeirra átti mikinn þátt í hefja þetta nýja listform til virðingar og verk Steinu eru sýnd víðs vegar um heiminn. Verkið sem sýnt var í Feneyjum hét Orka og byggði á myndefni frá íslenska hálendinu þar sem Steina einbeitti sér að hægfara umbreytingum í náttúrunni, bylgjuformum og sveiflum í flugi fugla. Á sýningunni notaði hún þrjá spilara, þrjá myndvarpa, sex hátalara og samstillingartæki til að framkalla eitt myndverk með tveimur hljóðrásum sem endurtók sig í fimmtán mínútna hringrás.

 

Val og umsjón: Bera Nordal
Sýningarstjórn: Auður Ólafsdóttir

 

Steina Vasulka: Orka, 1997

1999

Sigurður Árni Sigurðsson (f. 1963) var valinn með skömmum fyrirvara til að verða fulltrúi Íslands á tvíæringnum 1999. Í nálgun Sigurðar er það iðulega málverkið sjálft sem verður honum að viðfangsefni og verkin sameina á merkilegan hátt hið hlutbundna og hið óhlutbundna. Hann hefur sjálfur lýst málverkum sínum sem samtali við sögu málverksins og beitir ýmsum ráðum til að vekja áhorfendur til umhugsunar um eðli þess, málar holur og skugga sem flækja hefðbundinn skilning okkar á forgrunni og bakgrunni, á yfirborði málverksins og undirlagi þess, og á stöðu okkar sjálfra sem áhorfenda gagnvart rýminu í verkinu. Eins og Sigurður hefur einnig sagt sjálfur, leitast hann við að beina athygli okkar að veröldinni sem er milli málverksins og strigans.

 

Val og umsjón: Ólafur Kvaran
Sýningarstjórn: Auður Ólafsdóttir

 

Sigurdur Árni Sigurdsson, Exhibition view, 1999

2001
Finnbogi Pétursson (f. 1959) var fulltrúi Íslands í Fenyjum 2001 og umbreytti timburskála Alvars Aalto í risavaxið hljóðfæri í verki sem hann nefndi Diabolus. Verk Finnboga hafa frá upphafi ferils hans snúist mest um hljóð, rými og arkitektúr þar sem hann notar ýmist rafeindatækni eða náttúrulega hljóðgjafa til að móta skúlptúra og umbreyta skynjun áhorfandans á umhverfinu. Í Feneyjum bjó hann til 16 m langan gang sem í raun virkaði svipað og orgelpípa. Í pípuna veitti hann síðan tveimur hljóðum með tíðninni 61.8hz og 44.7hz svo úr varð hljóð sem lengi var bókstaflega bannað í kirkjum og kirkjulegri tónlist, hinn svokallaði Dibolus in musica. Verkið er að mörgu leyti dæmigert fyrir það hvernig Finnborgi blandar tækni og hefð til að gefa hljóðum og umhverfi nýja merkingu en hér má segja að verkið hafi fengið nýja skírskotun og dýpt þar sem það var sett fram í Feneyjum, einu af höfuðvígjum kaþólsku kirkjunnar um aldaraðir.


Val og umsjón: Hrafnhildur Schram
Aðstoðarmenn listamanns: Guðný Magnúsdóttir og Daníel Magnússon

 

Finnbogi Pétursson: Diabolus, 2001

 

Finnbogi Pétursson: Diabolus, 2001

2003

Rúrí (f. 1951) er einn af þekktustu alþjóðlegu listamönnum okkar og var fulltrúi Íslands árið 2003 þegar tvíæringurinn í Feneyjum var haldinn í fimmtugasta sinn. Rúrí hefur unnið í ýmsa miðla, með gjörninga, ljósmyndir, myndbönd og fleira. Innsetning hennar í Feneyjum bar yfirskriftina Archive – Endangered Waters og samanstóð af 52 ljósmyndum af fossum í íslenskri náttúru sem eru í hættu vegna virkjanaframkvæmda. Ljósmyndirnar voru framkallaðar á hálfgegnsæja filmu sem komið var fyrir milli tveggja glerplatna sem áhorfendur gátu dregið út úr sérsmíðuðum skáp og heyrt um leið upptöku af niðnum úr þeim fossi sem þeir voru að skoða. Þannig varð úr verkinu eins konar fossasafn sem dró bæði fram fegurðina í íslensku landslagi og beindi athygli að þeirri ábyrgð sem við berum á varðveislu hennar. Verkið vakti mikla athygli og hefur í kjölfarið verið sett up víða og hlotið umfjöllun í fjölmiðlum og fagtímaritum um allan heim.

Val og umsjón: Laufey Helgadóttir
Aðstoðarmenn listamanns: Þór Vigfússon og Pétur Örn Friðriksson
Nefnd: Hrafnhildur Schram og Ólafur Kvaran

 

Rúrí: Endangered Waterfalls, 2003

 

Rúrí: Endangered Waterfalls, 2003

2005

Gabríela Friðriksdóttir (f. 1971) var síðasti íslenski fulltrúinn sem sýndi í skála Alvars Aaltos í Feneyjum og jafnframt sá yngsti. Hún bjó til margmiðlunarverk sem samanstóð af myndböndum og skúltptúrinnsetningum, auk lágmynda og málverka. Með verkinu fylgdi tónlist sem unnin var í samstarfi við ýmsa listamenn, m.a. Björk Guðmundsdóttur og Daníel Ágúst Haraldsson. Þá kom arkitektinn Birgir Þröstur Jóhannsson að því að umbreyta ytra byrði skálans og í myndböndunum vann Gabríela m.a. með kvikmyndagerðarmanninum Þorgeiri Guðmundssyni, Gjörningaklúbbnum og dansaranum Ernu Ómarsdóttur. Samstarf af þessu tagi er einkennandi fyrir verk Gabríelu þar sem leitast er við að virkja marga miðla og nálganir til að kanna tengsl þeirra og draga fram mótsagnir og samhljóma í viðfangsefninu. Titill verksins, Versations/Tetralogia, undristrikaði þessa tilætlan og vísar bæði til samræðu og sundrungar. Í verkinu leitaðist hún við að kanna samband Íslendinga við eigin sögu og endursköpun minna og minninga frá goðsögulegum tíma fram gegnum aldirnar. Í titlinum hefur hún tekið con út úr conversations til að gefa til kynna að hversu mjög sem við leitumst við að finna samhengið í orðræðu okkar tekst það sjaldnast að fullu.

 

Val og umsjón: Laufey Helgadóttir
Aðstoðarmenn listamanns: Birgir Þröstur Jóhannsson, Jóhann L. Torfason og Sigurður Guðjónsson
Nefnd: Hrafnhildur Schram, Ólafur Kvaran og Jóhann L. Torfason

   

Gabriela Frídriksdóttir, Icelandic Pavilion 2005

 

Gabriela Frídriksdóttir, Icelandic Pavilion 2005

 

 

 

2007

Steingrimur Eyfjörd (f. 1954) var fulltrúi Íslands í Feyneyjum 2007 og bar sýning hans titilinn „Lóan er komin“. Þar fékkst Steingrímur við ýmis minni um íslenskt þjóðerni og sögu: náttúruna, álfa, tröll og bókmenntir. Steingrímur er einn þeirra listamanna sem komu fram á sjónarsviðið um miðjan áttunda áratuginn og tengdust sýningarsalnum á Suðurgötu 7. Hann hefur á sýningum sínum rannsakað ítarlega ýmsar aðferðir og nálganir samtímalistarinnar og um leið fengist við áleitin viðfangsefni úr íslenskum veruleika og sögu. Verk hans er að finna á öllum helstu söfnum á Íslandi og hann hefur líka sýnt víða erlendis á ferli sínum. Sýning Steingríms í Feneyjum var sú fyrsta sem sett var upp utan Giardini-sýningarsvæðisins en aðsókn og viðbrögð gagnrýnenda fóru engu síður fram úr björtustu vonum og staðfestu valið á Palazzo Bianchi Michiel fyrir sýningar íslensku fulltrúanna.

 

Val og umsjón: Christian Schoen, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, CIA.IS
Sýningarstjórn: Hanna Styrmisdóttir
Aðstoðarmaður Christians Schoen: Rebekka S. Ragnarsdóttir
Aðstoðarmenn listamannsins: Úlfur Grönvold, Erling Þ. Klingenberg og Sirra Sigrún Sigurðardóttir

   

Steingrimur Eyfjörd, Icelandic Pavilion 2007

 

Steingrimur Eyfjörd, Icelandic Pavilion 2007

2009
Ragnar Kjartansson (b. 1976) var fulltrúi Íslands á 53. Feneyjatvíæringnum  – La Biennale di Venezia. Ragnar breytti íslenska skálanum í vinnustofu þar sem hann málaði daglega málverk af ungum manni sem sat fyrir á sundskýlu, reykir og sötrar bjór, með Canale Grande sýkið í bakgrunni. Auk þessa sex mánaða langa gjörnings var til sýnis í skálanum myndbandsverk sem Ragnar gerði í Klettafjöllunum í Kanada. Íslenski skálinn var í fallegu rými í miðbæ Feneyja.

 

Ragnar er kunnur fyrir fjölbreytt verk sín sem eiga rætur að rekja í ólíka miðla, m.a. leikhús, tónlist, málverk og gjörninga. Auk þess að miðla í myndlist sinni rómantísku lífsviðhorfi á einlægan máta, nýtir Ragnar sér gjarnan markviss form og þaulhugsaða tækni til að tendra samband listamanns, verks og áhorfenda.  [lesa meira]

 

 

Val og umsjón: Christian Schoen, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, CIA.IS
Sýningarstjórn: Markús Thór Andrésson & Dorothée Kirch
Aðstoðarmaður Christians Schoen: Rebekka S. Ragnarsdóttir
Nefnd: Christian Schoen, Hafthór Yngvason, Halldór Björn Runólfsson, Rúrí and Kristján Steingrimur Jónsson.

 

CS

   

Ragnar Kjartansson

 

Ragnar Kjartansson

 

   

 

 

 

 

 

 

 

 

center For Icelandic Art